Leyndarmál 1xINTERNET

Í síðustu viku fagnaði ég sex mánuðum hjá 1xINTERNET. Á þessum tíma hef ég upplifað svo margt nýtt og datt í hug að líta yfir farinn veg og deila minni upplifun af því að vinna í svona sérstöku vinnuumhverfi.

Hér kemur leyndarmálið bakvið 1xINTERNET og hvernig er að vinna hér.

Leyndarmálið

Okei, ég vildi ekki eyðileggja þetta strax í byrjun, en lykillinn er að fólk sé opið og móttækilegt fyrir nýjum hlutum. 

Nú til dags er orðið "fjölbreytni" mikið notað. Það hefur orðið tískuorð síðustu ár, en það er mikill munur á því að tala um fjölbreytni og að fylgja því svo eftir. Að sama skapi er ekki hægt að tala um fjölbreytni ef þú getur ekki opnað hugann, svo ég trúi því að fyrst og fremst þurfi fólk að vera móttækilegt fyrir nýjum hlutum og hugmyndum.

Þegar þetta er gert rétt er hægt að læra svo mikið af því, bæði persónulega og í starfi.

Svo hvernig gengur þetta fyrir sig í raunveruleikanum?

Hugtakið fjölbreytni getur hafa mismunandi þýðingu - það getur átt við um kyn, trúarbrögð, það getur vísað til fjölskylduhátta, uppruna fólks og starfsreynslu svo eitthvað sé nefnt. Við hjá 1x erum eins ólík og við erum mörg - við erum öll mannleg.

Mín fyrstu kynni af Baddý, forstjóranum okkar, voru á DrupalCon í Vínarborg árið 2017. Við sátum á bar í Safnahverfinu (Museumsqueartier) og hún var að tala um það - af ósviknu stolti og ánægju - að í 1x teyminu væri ungversk stúlka sem hafði verið starfandi sem endurskoðandi þar til hún áttaði sig á því að framendaþróun væri hennar köllun. Melinda bankaði upp á hjá 1x, var ráðin og hefur síðan unnið gott starf hjá fyrirtækinu. Á þessum tíma vissi ég ekki mikið um fyrirtækið en þetta opnaði augu mín og eyru sannarlega og mig langaði að vita meira um það hvernig teymið starfaði saman. Það var augljóst að í fyrirtækinu ríkti opið viðmót gagnvart fólki, burtséð frá því hvaðan það kom og fyrir mér er það það sem er átt við með fjölbreytni.

Tungumálið/n sem við tölum

Það getur verið vandasamt að vinna í umhverfi þar sem aðeins fáir hafa ensku að móðurmáli. Við tölum brotna ensku og já, við þurfum stundum að umorða setningar í faglegu umhverfi. Ennfremur getur ýmis misskilningur komið upp en þegar maður fær tilfinninguna fyrir þessu er auðvelt að leysa vandamálin. Það að komast yfir þessar litlu hindranir efla tungumála-, sem og samskiptahæfileika okkar. Þegar ég vinn á Frankfurt skrifstofunni finnst mér gaman að sitja á mismunandi stöðum þar sem ég heyri samstarfsfélaga mína tala þýsku, íslensku, úkraínsku eða spænsku (og ensku auðvitað) og stundum ungversku. Okkar eiginn Babel turn er frekar kúl. Meira að segja hundurinn Benni talar 3 tungumál!

Toppurinn á fyrsta hálfa árinu mínu var klárlega árslokakvöldverður fyrirtækisins þar sem við sungum afmælislagið fyrir Pablo á mörgum tungumálum. Hvernig getur maður upplifað sig öðruvísi en hluti af heildinni við svona aðstæður?

þetta er ekki kaos, þetta er 1xINTERNET 

Fjölmenning alla leið!

Svo kemur að fjölmenningu. Það að vera móttækilegur fyrir nýjum hlutum þýðir ekki aðeins að þú fagnir fjölbreytni heldur hefur þú einnig þann eiginleika að vera opinn fyrir nýjum upplifunum. Það að starfa hjá fjölmenningarfyrirtæki krefst þess að þú hafir opinn huga.

Þegar ég komst í kynni við Drupal samfélagið árið 2013 komst ég strax að því að fjölbreytileiki getur ýmist verið blessun eða bölvun (þegar einhver skilur ekki hvernig á að laga sig að því). Í teyminu okkar upplifi ég þetta sem blessun, því það sýnir að við erum bara mannleg þegar allt kemur til alls. Það gefur okkur ótal tækifæri til að þroskast, læra hvert af öðru og að sætta okkur við að fólk er ólíkt.

Það er til dæmis mismunandi um hvað fólk vill tala (eða ekki), hvaða grín slær í gegn og hvað er of mikið. Hvernig á að gefa fólki athugasemdir og hvernig maður útskýrir sín vinnubrögð fyrir öðrum. Þetta er eitthvað sem lærist þegar þú vinnur hjá alþjóðlegu fyrirtæki þar sem starfsfólk kemur frá öllum heimshornum. Þetta er einnig hálfpartinn lykillinn að því að hafa opinn huga - að skilja og viðurkenna þá staðreynd að fólk er mismunandi.

Að vinna í fjarvinnu

Áður en ég hóf störf hjá 1xINTERNET var það sjálfgefið að vakna á morgnana, taka mig til, fara á skrifstofu og verja næstu 8-9-10+ klukkustundunum þar, vinna og  fara síðan heim. Að vera í fjarvinnu gjörbreytti lífinu mínu og ég verð að viðurkenna, ég er enn að venjast því.

Ólíkt hugmyndum margra er raunin við það að vinna heima ekki sú að maður sitji fyrir framan tölvuna á sófanum í kósýgallanum. Þvert á móti snýst það fyrst og fremst um að skilja hvernig vinnan sjálf verður öðruvísi og stundum meira krefjandi.

Þrátt fyrir að vera lítið fyrirtæki erum við með skrifstofur á fjórum stöðum í Evrópu og þess utan vinna 10 starfsmenn alltaf í fjarvinnu (í heildina vinnum við frá a.m.k. 14 stöðum!). Til verða áhugaverðar aðstæður - þetta krefst bæði vinnu og aðlögunarhæfni frá báðum hliðum. Við notum Slack og Google Meet auðvitað mikið en það er alls ekki nóg.

Þegar samstarfsfólkið þitt er ekki bara í næsta herbergi, lærir maður að vinna vinnuna sína öðruvísi. Það er nauðsynlegt að sýna þolinmæði og skipuleggja sig vel þar sem þú færð ekki endilega svör við öllum þínum spurningum strax og þú þarft einnig að komast í vinnuflæði. Ég hef persónulega lært mjög margt og ég get notað tímann minn mun betur núna en ég gerði fyrir sex mánuðum og ég sé afraksturinn af minni daglegu vinnu.

Góð samskipti eru lykillinn

Fjarvinna gerir það líka að verkum að athugasemdum er öðruvísi háttað. Hjá 1x horfum við á árangur og framfarir í stað þess að fylgjast með vinnu annarra í gegnum smásjá. 

Þetta snýst um að átta sig á því að þó við séum ólík, þá erum við að vinna að sameiginlegum markmiðum. Við þurfum að hvetja liðsfélaga okkar áfram og hjálpa þeim þegar þörf er á. Þó við séum öll ólík þá vitum við að hreinskilni og skýrleiki stuðla að árangri verkefna og samskipti eru mikilvægur hluti af því að takast á við vandamál. Ég er þakklát fyrir það að eiga samstarfsfélaga sem ég get treyst fyrir spurningunum mínum og munu segja það sem mun hjálpa mér, ekki það sem ég vil heyra. Þessi nálgun hjálpar fólki að vaxa í starfi.

Þetta er mikilvægur hluti af því að vinna náið með fólki sem er staðsett annars staðar í heiminum. Þökk sé stemningunni innan fyrirtækisins virkar þetta vel. Það þarf ekki að vera erfitt að komast yfir menningarmun en það þarf að byrja einhvers staðar.

Ég myndi gjarnan vilja heyra um vinnuumhverfið ykkar, og þá sérstaklega hvort þið hafið einhver góð ráð fyrir teymi sem vinna á mismunandi stöðum - hvað virkar best fyrir ykkur? Hvert er ykkar leyndarmál?