Jólaglögg 1xINTERNET 2022

4 min.
The women of the Conil office.

Föstudaginn 2. desember héldum við jólaglögg 1xINTERNET. Starfsmenn okkar eru nú 74 manns og vegna óvissunnar í samfélaginu hérna ytra var tekin sú ákvörðun að skipta hópnum upp. Haldin voru þrjú partý á skrifstofum okkar á meginlandi Evrópu; eitt í Frankfurt, eitt í Berlín og eitt í Conil.

Planið var að hittast á skrifstofunni og byrja á fordrykk. Vegna búsetu koma margir af starfsmönnum okkar óreglulega eða mjög sjaldan á skrifstofuna svo það voru nokkrir að hittast í fyrsta sinn. Eftir það vorum við með stutt online partý þar sem farið var yfir árið sem var að líða, rætt var um verkefni sem bíða okkar á komandi ári og einnig til að allur hópurinn gæti sameinast í nokkra stund og leyfa þeim að taka þátt sem ekki gátu ferðast á eina af skrifstofunum.

Go-Kart í Conil

Eins og búast má við af Spánverjum byrjaði partýið fyrst í Conil. Þar var fyrst lítil athöfn um morguninn þar sem Ana, skrifstofustjórinn okkar í Conil, átti 5 ára starfsafmæli hjá fyrirtækinu þennan sama dag. Stefan tæknistjóri fór til Conil til að vera með í hátíðarhöldunum þar og hann afhenti Ana blómvönd og kampavín á skrifstofunni. 

Í hádeginu var spænskt tapas beint frá býli og var þar boðið upp á ost, spænska skinku, hummus, guacamole, nýbakað brauð og fleira góðgæti. Kollegar okkar á Spáni voru í miklu stuði þegar kom að online partýinu, en eftir það fóru þau öll saman í Go-Kart að sanna akstursleikni sína þar sem súper-snöggi Stefan lenti í öðru sæti og var krýndur sigurvegari.

“Það besta og mikilvægasta við partýið var tíminn sem við eyddum saman, en það kom líka skemmtilega á óvart hversu hratt Go-Kart bílarnir fóru!”

Mónica, framendaforritari hjá 1xINTERNET

Mónica Rodríguez Cárdenas Frontend Developer 1xINTERNET

Fjör í Frankfurt

Í Frankfurt byrjaði partýið með pizzu og fordrykk í hádeginu. Frankfurt hópurinn var stærstur, en þar hittust 26 manns og gerðu sér glaðan dag saman. Eftir online partýið skiptist hópurinn á gjöfum í leynivinaleik, en það komu margar skemmtilegar gjafir upp úr pökkunum. Til dæmis karaoke hljóðnemi, sjálflýsandi bakpoki, búlgarskar skálar, sælgæti frá mörgum mismunandi löndum og margt fleira. 

Við mikinn fögnuð viðstaddra henti Baddý forstjóri í skrifstofu-karaoke til að prufa nýja hljóðnemann sinn. Eftir að hópurinn hafði sungið sig í ofurstuð var stefnan tekin í bæinn þar sem farið var í axarkast. Eftir smá upphitun náðu flestir góðum tökum á sínum innri víking og voru þrusuflottir með öxina. Þegar þarna kom við sögu var hópurinn orðinn fremur svangur og því var förinni heitið á ítalskan stað þar sem við fengum ljúffenga þriggja rétta máltíð.

“Allt kvöldið var virkilega skemmtilegt og axarkastið var svo mikið fjör, miklu skemmtilegra en ég þorði að vona.”

Fran, framendaforritari hjá 1xINTERNET

Fran 1xINTERNET

Bjór í Berlin

Líkt og í Conil og Frankfurt beið hópurinn í Berlín allan morguninn með eftirvæntingu eftir partýinu. Sumir voru orðnir svo spenntir að þeir vildu helst opna leynivinagjöfina sína strax í hádeginu. Í Berlín voru líka margar flottar gjafir, sem dæmi kaffi frá Costa Rica, eggjabikarar frá fyrrum Austur-Þýskalandi og sætindi frá Sviss og Ungverjalandi.

Eftir nokkra bjóra fundust gúmmíbyssur sem sem faldar voru á skrifstofunni og út frá því braust út skemmtilegur leikur þar sem Christoph framkvæmdastjóri fékk nokkur óheppileg skot, en hinir sluppu örlítið betur. Hópurinn fór svo út að borða við Alexanderplatz í Berlín, en veitingastaðurinn sem varð fyrir valinu bruggar sinn eigin bjór og býður upp á þýskan mat með nútímalegu yfirbragði. Kvöldinu var svo slúttað á The Badfish Bar sem er ekta berlínskur bar. Hinir allra hugrökkustu í hópnum prófuðu “The Mexican” sem er Tómat-Vodka-Tabasco skot sem brennur vel í munni.

"Partýið var stórkostlegt. Ég hefði aldrei trúað því að það væri hægt að skemmta sér svona vel á vinnuviðburði. Besti parturinn var byssuleikurinn á skrifstofunni og leynivinagjöfin mín."

Sarika, framendaforritari hjá 1xINTERNET

Sarika Wirtz - Front End Developer at 1xINTERNET

Velgengni ársins fagnað saman

Partýið heppnaðist þrusuvel á öllum stöðum og einkenndist af gleði, góðum mat og frábærum félagsskap. Þetta var hin fullkomna leið til þess að fagna góðum árangri fyrirtækisins á árinu sem er að líða. Við hlökkum til næsta hittings og vonumst til að geta hist öll saman við fyrsta tækifæri!

Önnur greinar

Viðburðir

1xINTERNET á DrupalCon Prague 2022

1xTEAM at DrupalCon Prague 2022

Þetta árið fór DrupalCon Europe fram í Prag, vikuna 20.-23. september. Það er ótrúlegt til þess að...

6 min.
Viðburðir

1xCAMP Iceland - júní 2022

Group photo

1xINTERNET bauð öllu starfsfólki sínu til Íslands dagana 16.-19. júní 2022 og ákveðið var að halda...