1xCAMP Iceland - júní 2022

Group photo - 1xCAMP
1xINTERNET teymið í Hveragerði

1xINTERNET bauð öllu starfsfólki sínu til Íslands dagana 16.-19. júní 2022 og ákveðið var að halda 1xCAMP í Hveragerði. Þetta var fyrsti viðburðurinn þar sem allur hópurinn kom saman frá því að heimsfaraldurinn hófst. Við skoðuðum ýmsar náttúruperlur, fórum í göngur, böðuðum okkur í heita læknum í Reykjadal, borðuðum nóg af góðum mat, drukkum sérframleiddan 1xBJÓR, og nutum samverustunda í bjartri sumarnóttinni. Íslensku samstarfsfélagar okkar tóku vel á móti okkur og við fengum að upplifa þetta fallega, magnaða land SAMAN.

Fyrirtækið okkar stækkar hratt og mörg okkar höfðu aldrei hist í raunheimum svo það var klárlega þörf á 1xCAMP. Síðan heimsfaraldurinn hófst hefur fyrirtækið næstum tvöfaldast að stærð. Við vinnum á víð og dreif um Evrópu, sumir heima og aðrir á skrifstofum fyrirtækisins, en það er hefð fyrir því að hittast einu sinni á ári. Það hafði hinsvegar ekki verið möguleiki í langan tíma svo viðburðarins var beðið með mikilli eftirvæntingu. Af 65 starfsmönnum 1xINTERNET komu 53 á 1xCAMP. Það var ekki einfalt að koma öllum til landsins en fólk ferðaðist frá hinum ýmsu stöðum; Spáni, Þýskalandi og Rúmeníu, og margir þurftu að millilenda á leiðinni. Við lentum í því að einum fluglegg var aflýst á síðustu stundu og það voru einhverjar seinkanir en að endingu komust allir á staðinn.

Hópurinn allur hittist fyrst fimmtudagskvöldið 16. júní á pizzastaðnum og brugghúsinu Ölverk. Eigendur staðarins voru með kynningu um bjórana sem þau brugga, við smökkuðum þá og gæddum okkur á ljúffengri pizzu. Það var magnað að hittast svona í fyrsta sinn, allt í einu voru andlitin á skjánum tengd alvöru fólki. Norman er mun hærri en maður heldur. Ein okkar tók fyrsta daginn sinn hjá 1xINTERNET í ferðinni. Getið þið ímyndað ykkur fyrsta daginn í nýrri vinnu, smakkandi bjóra og borðandi pizzu á Íslandi?!

Næsta dag fórum við í skoðunarferð um víðáttumikið íslenskt landslagið en fyrsta stopp var í Gömlu Lauginni (Secret Lagoon), elstu sundlaug landsins. Við böðuðum okkur í náttúrulauginni og dáðumst að gjósandi hverunum í kring. Næsta stopp var í Friðheimum þar sem við fengum okkur hádegisverð. Þetta er einstakur staður, íslensk framleiðsla eins og hún gerist best, tómataræktunin er sjálfbær og jarðhitinn á svæðinu er notaður til að knýja framleiðsluna. Friðheimar eru viðskiptavinur 1xINTERNET og við fengum áhugaverða gróðurhúsakynningu frá eigandanum, Knúti Rafni Kárasyni. Þetta var yndislegur staður og hádegisverðurinn ljúffengur; tómatsúpa og stökkt, nýbakað brauð í miðju gróðurhúsinu á meðal tómatanna. 

Við héldum einnig upp á afmæli Albertos okkar, og afmælissöngurinn var sunginn á mörgum tungumálum, en það er nú orðin hefð hjá 1xINTERNET. Uppáhald allra er flutningur Majids en hann er alltaf beðinn um að syngja á Urdu. Það var áþreifanleg tenging á milli okkar allra í heitu gróðurhúsinu, umkringd íslenskum tómötum; við höfum búið til hefðir hjá 1xINTERNET, við njótum þess að vera saman og við erum teymi.

Eftir hádegismatinn fórum við að Gullfossi og því næst Geysi. Ísland er magnað, eins og af öðrum heimi. Þessi viðburðaríki dagur, fullur af náttúruperlum, fékk mann næstum til að segja “ég get ekki meira af mögnuðum náttúruundrum í dag”.

Ég er enn að fjalla um fyrsta dag ferðarinnar, og partýið var ekki einu sinni byrjað. Við borðuðum æðislegan kvöldverð á Hótel Örk. Þar var sungið, dansað (mikið) og píanóið dregið fram. 1xINTERNET teymið er fjölbreytilegt og meðal okkar eru margir hæfileikaríkir einstaklingar, við fengum hrífandi tónlistarflutning frá RAVEN og hulunni var svipt af hæfileikum nokkurra starfsmanna. Við vissum öll að Artem gæti auðveldlega aðlagað stafræna lausn að þörfum hinna ýmsu kúnna en við vissum ekki að hann gæti líka samið dansrútínur. Nóttin kom aldrei svo partýið hélt áfram. 24 tímar af dagsbirtu og 24 tíma partýstand - leggjast Íslendingar í dvala á veturna til að bæta upp fyrir sumarpartý sem enda aldrei? Einn af mörgum leyndardómum Íslands.

Íslenska lyfið við fylgikvillum næturbröltsins er að ganga á fjöll og baða sig í heitum laugum. Í alvöru. Og það virkar. Á laugardeginum gengum við upp í Reykjadal. Þetta var heldur brött ganga með vindinn í fangið alla leiðina upp. Maður fann svo vel orkuna frá náttúrunni og það var töfrum líkast að enda gönguna á því að stinga sér ofan í heitan læk. Og skrýtið. Ég held að það hafi verið uppáhaldið mitt í ferðinni, að fljóta í heita vatninu uppi í fjöllum með vinum mínum hjá 1xINTERNET. Dagurinn endaði á mögnuðum kvöldverði í VARMÁ, með útsýni yfir ána og landslagið í kring. Góður matur í góðum félagsskap.

Mér varð ljóst í þessari Íslandsferð að þó við vinnum á mismunandi stöðum um alla Evrópu, þá er erum við samheldinn og sterkur hópur. Það var hreint út sagt magnað að vera umkringdur öllu þessu fólki úr mismunandi menningarheimum, allir með sinn bakgrunn og persónuleika, en finna samt svona sterka tengingu. Þessar íslensku sumarnætur verða lengi í minnum hafðar og við hlökkum strax til næsta hittings. 1xINTERNET nýtur velgengni vegna þess að við vinnum vel sem heild, hvort sem við erum að þróa stafrænar lausnir eða að ganga á fjöll. Við erum tengd. Við erum hluti af einhverju - frábæru hugbúnaðarfyrirtæki með hæfileikaríku og yndislegu samstarfsfólki.

Videó frá ferðinni

Fleiri myndir frá 1xCAMP Iceland